Fróðleikur

Börn þroskast ólíkt og hafa þörf fyrir örvun fyrir aldur, löngun og þroska. Barnið þitt þroskar sig frá toppi til táar á fyrsta aldursári. Fyrst lyftir það höfðinu, svo öxlunum, þegar það liggur á maganum. Síðan uppgötvar barnið hendurnar og fingurna og æfir sig í því að nota þær. Á sama tíma þroskast efri hluti líkamans og barnið fer smátt og smátt að geta rúllað sér, síðan geta þau skyndilega snúið sér yfir á magann og aftur á bakið. Fara að draga sig á handleggjunum, rugga sér á fjórum fótum síðan að leggja sig yfir á hliðarnar og síðan setjast þau upp á svipuðum tíma og þau fara að skríða. Þá eru þau búin að þjálfa upp mjaðmir og fótleggi og geta staðið upp með stuðning, að lokum fara þau að ganga sjálf.

Mikilvægi þess að liggja á maganum

  • Er grunnurinn að hreyfigetu barnsins.
  • Styrkir hnakka, hrygg og magavöðva.
  • Barnið fær náttúrlegt nudd fyrir maga og þarma sem oft “kitlar”
  • Minnkar álag á höfuð barnsins þar sem það sefur marga tíma á bakinu.
  • Róar barnið þar sem það finnur mest fyrir líkamanum í þessari stöðu.

Með athöfnum og leik er barnið að örva og þroska miðtaugakerfi sitt. Það er þó til hópur barna, þar sem taugafræðilegur þroski er ekki sem skyldi. Þau hafa eðlilega greind en hæfni þeirra til að skilgreina taugaboð eru hins vegar ekki nægilega góð.

Skynheildun er taugafræðilegt ferli, þar sem fram fer stjórnun og úrvinnsla skynboða frá eigin líkama og umhverfi hans. Skynheildun er sem sé upplýsingaferli. Mörg skynjunarferli eiga sér stað á ómeðvitaðan hátt og þess vegna verðum við þeirra yfirleitt ekki vör. Þrátt fyrir að við flest gerum okkur grein fyrir skynjun eins og bragði, lykt, sjón og heyrn, þá er okkur ekki alltaf jafnljóst að taugakerfið skynjar líka snertingu, hreyfingu, þyngdarafl og líkamsstöðu. Heilinn verður að samhæfa öll þau skilaboð sem berast þangað. Sú samhæfing á sér stað í heilastofni sem verður því eins konar skiptiborð. Ef það vinnur ekki rétt, á barnið oft í miklum erfiðleikum í daglegu lífi og það upplifir sjálft sig og umhverfið í óreiðu.

Þrír grunnþættir skynjunar, sem eru undirstaða þess að þroski miðtauga-kerfisins sé eðlilegur og að skynheildun einstaklingsins verði fullnægjandi eru:
Jafnvægisskyn- Snertiskyn – Stöðuskyn
Iðjuþjálfar leggja mikla áherslu á að vinna með þessa þætti.

Skipulagning og samhæfing hreyfinga

Jafnvægisskyn, snertiskyn og stöðuskyn eru grunnþættir skynheildunar. Á þessum þáttum byggist frekari þróun skynheildunar en í henni felst skipulagning, samhæfing hreyfinga og sjónúrvinnsla. Til þess að barnið geti hreyft sig markvisst, verður það að geta samhæft báðar hliðar líkamans og skipulagt hreyfingar sínar. Í byrjun er skipulagningin meðvituð en eftir því sem barnið æfir og lærir, verður hún meira ómeðvituð. Þetta gefur barninu reynslu sem nýtist því sjálfkrafa í mismunandi hreyfingum. Undirstaða þess að skipulagning hreyfinga sé góð er að líkamsvitund sé í lagi en hún er aftur háð eðlilegu jafnvægis-, snerti- og stöðuskyni

Stöðuskyn

Stöðuskyn er skynjun frá vöðvum og liðamótum. Það gefur okkur upplýsingar um stöðu líkamans án hjálpar sjónarinnar. Ef stöðuskynið er skert, kemur það fram í klunnalegum hreyfingum, setstaða barnsins er slæm og það treystir meira á sjónina. Við örvun á stöðuskyni eru börnin t.d. látin liggja á maganum á rúllubretti. Þessi stelling ásamt því að barnið er á ferð, gefur mjög mikilvæg áreiti um skynjun og hreyfingu til heilastofnsins. Hreyfingin á rúllubrettinu og skynjunin sem henni fylgir, byggir einnig upp og eflir þá heilastarfsemi sem meðal annars tal og lestur grundvallast á.

Snertiskyn

Snertiskynið er staðsett alls staðar í húð og slímhimnum. Það skiptist í yfirborðssnertiskyn og djúpsnertiskyn. Ákveðið jafnvægi verður að vera á milli þessara þátta til þess að rétt viðbrögð fáist við mismunandi snertiskynáreitum. Ef snertiskynjunin virkar ekki sem skyldi og barnið fær ekki næga snertiskynörvun, er hætt við að taugakerfið fari úr jafnvægi. Hjá sumum börnum er ójafnvægi í snertiskynskerfi slíkt, að yfirborðssnertiskyn er yfirgnæfandi og veldur snertifælni sem aftur leiðir til hegðunarvandamála. Þetta getur valdið félagslegum erfiðleikum.

Jafnvægisskyn

Jafnvægisskynið er staðsett í innra eyra. Jafnvægisskyn gerir okkur kleift að skynja aðdráttarafl jarðar og áhrif þess á okkur, hreyfingu eða kyrrstöðu, hversu hratt við förum og í hvaða stefnu miðað við umhverfið. Það samhæfir sjálfkrafa hreyfingar augna, höfuðs og líkama. Einnig hefur það áhrif á vöðvaspennu í líkamanum og þar af leiðandi líkamsburð.

Ef jafnvægisskynið starfar ekki rétt, getur það verið erfiðleikum bundið fyrir barn í skóla að líta upp á töfluna og aftur niður á blaðið sitt án þess að missa fókus og þurfa að finna línuna að nýju. Barn með skert jafnvægisskyn á einnig erfitt með að halda jafnvæginu þegar það sparkar bolta. Viðbrögð gegn áreitum á jafnvægisskyni geta verið misjöfn.